Innlent

Fella átti úrskurð í febrúar

Ákvörðun um legu Sundabrautar bíður nú úrskurðar umhverfisráðherra vegna þriggja kæra sem bárust vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Á borgstjórnarfundi í janúar kom fram í máli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra að frestur umhverfisráðherra til að fella úrskurð rynni út í febrúar. Ekki náðist í Sigríði Önnu Þórðardóttur í gær þar sem hún er erlendis í fríi, en Haraldur Johannessen, aðstoðamaður ráðherra, segir að óljóst sé hvenær úrskurðar sé að vænta, hins vegar sé farið að styttast í hann. "Þetta viðamikið og óvenjulega flókið mál," sagði Haraldur. Ef umhverfisráðherra samþykkir innri leið Sundabrautar, verður Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar breytt í samræmi við ákvörðunina. Ytri leiðin, sem Reykjavíkurlistinn hafði hingað til talað fyrir, byggir á hábrú yfir sundin sem myndi kosta tæpa tíu milljarða og var reiknað með 10 prósent hagkvæmni. Innri leiðin, sem nú er stefnt að því að fara, kostar um átta milljarða. Tvær innri leiðir eru mögulegar. Annars vegar eyjaleið, sem Vegagerðin hefur lagt áherslu á. Hins vegar lágreist brú yfir Kleppsvík. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að brúarleiðin sé vænlegasti kosturinn fyrir lagningu Sundabrautar. Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs, segir að þó svo hábrú sé ekki lengur helsti kostur Reykjavíkurlistans, sé ekki útilokað að haganlega hönnuð brú yfir Kleppsvík verði borgarprýði. Brúin mun þó líklega liggja vestar í hamarinn en núverandi tillaga segir til um. "Þá þarf að skoða stokkalausnir í Vogahverfi, þannig að hverfið geti endurheimt samband sitt við Elliðavog." Í því sambandi segir Dagur að fyrir liggi stækkun Bryggjuhverfisins og uppbygging íbúabyggðar í Súðavogi og Dugguvogi. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar að átta milljörðum verði varið Sundabraut á árunum 2007 til 2010, verður árið 2007 hægt að hefja framkvæmdir við brautina yfir í Grafarvog. Seinni hluti brautarinnar, um Álfsnes upp á Kjalarnes verður framkvæmd með tilstilli einkaframkvæmdar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×