Innlent

Davíð á rétt á tvöföldum launum

Laun seðlabankastjóra voru hækkuð um fimmtán prósent fyrir tveimur vikum og er formaður bankastjórnar nú með 1.354.000 krónur á mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Ingimundi Friðrikssyni, aðstoðarbankastjóra Seðlabankans. Davíð Oddsson hefur rétt á að þiggja eftirlaun sem ráðherra ofan á laun sín sem seðlabankastjóri. Eftirlaunin í upphafi ráðningartímabilsins verða 334 þúsund krónur á mánuði vegna aldurstengdrar skerðingar sem kemur á eftirlaun þegar ráðherrar fara í aðra launaða vinnu. Í lok ráðningartímabils síns sem seðlabankastjóri verða eftirlaunin hins vegar um 718 þúsund krónur. Davíð gæti því verið með 1.688.000 krónur í laun frá ríkinu á mánuði þegar hann tekur við starfi seðlabankastjóra og 2.074.200 undir lok ráðningartímabilsins. Samkvæmt eftirlaunalögunum umdeildu sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2003 hefur Davíð rétt á eftirlaunum sem eru 80 prósent af launum forsætisráðherra. Laun forsætisráðherra eru 915.162 krónur á mánuði. Færi Davíð á eftirlaun nú án þess að fara í annað starf fengi hann því 732.130 krónur í eftirlaun á mánuði. Davíð er fæddur 17. janúar 1948 og er því 57 ára en samkvæmt eftirlaunalögunum getur hann hafið töku eftirlauna 55 ára hafi hann gegnt ráðherraembætti lengur en sex ár. Hið sama gildir fari hann í annað launað starf. Lögin gera þó ráð fyrir því að eftirlaunin skerðist um 0,5 prósent fyrir hvern mánuð sem eftirlaunaþegann vantar upp á 65 ára aldurinn og munu eftirlaun hans sem forsætisráðherra því skerðast um 43,5 prósent fyrsta mánuð hans í starfi. Skerðingin minnkar þó um 0,5 prósent á hverjum mánuði og fellur niður ef hann lætur af störfum seðlabankastjóra. Að sögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem situr í bankaráði, voru skiptar skoðanir um launahækkunina í ráðinu. "Samfylkingin samþykkti hana ekki," segir Ingibjörg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×