Innlent

Verðbólgumörk Seðlabankans rofin

Verðbólgumörk Seðlabankans hafa verið rofin með áberandi hætti að mati greiningardeildar Íslandsbanka. Verðbólgan á landinu er 7,6 prósent miðað við vísitöluhækkun síðustu þriggja mánaða, en 4,8 prósent miðað við síðustu tólf mánuði. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitalan hækkað um 1,9 prósent, en það jafngildir 7,6 prósenta verðbólgu á ári. Frá síðasta mánuði hefur vísitalan hækkað um 1,52 prósent. Meðal skýringa á hækkun vísitölunnar er að sumarútsölum er víðast hvar lokið og hefur verð á fatnaði og skóm hækkað um 13 prósent, dagvörur hafa hækkað um 1,7 prósent og bensín og gasolía um 4,9 prósent. Miðað við hækkun vístölu síðustu tólf mánaða mælist verðbólga nú 4,8 prósent og hefur á einum mánuði hækkað um heilt prósentustig. Samkvæmt Greiningardeild Íslandsbanka eru efri mörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans þar með rofin með áberandi hætti og segja sérfræðingar Íslandsbanka að Seðlabankinn þurfi nú að gera ríkisstjórninni skriflega grein fyrir áformum sínum til að ná verðbólgu aftur niður í tvö og hálft prósent á ný. Að mati Íslandsbanka getur Seðlabankinn varla túlkað nýjustu tölur á aðra vegu en sem neikvæð tíðindi, jafnvel þótt hluti aukinnar verðbólgu stafi af hækkun olíuverðs og tilfærslu á útsöluáhrifum á milli mánaða. Þá setji verðbólgan kjarasamninga í hættu og ógni þar með stöðugleikanum á vinnumarkaði á næstu misserum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×