Sport

Gunnar Heiðar metinn á 2 milljónir punda

Breska dagblaðið Sunday Mirror greindi frá því í gær að Steve Bruce, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Birmimgham, ætli að gera sænska liðinu Halmstad tilboð í Eyjamanninn Gunnar Heiðar Þorvaldsson þegar félagaskiptaglugginn opnar um áramótin. Eyjapeyjinn er sagður metinn á 2 mlljónir punda en það jafngildir um 216 milljónum íslenskra króna.

Bruce trúir því að Gunnar geti verið lausnin á vandamálinu með markaskorun sinna manna en sóknarmenn Birmingham, Mikael Forssell, Emile Heskey og Walter Pandiani hafa aðeins skilað inn þremur mörkum í net andstæðinga sinna á tímabilinu. Gunnar Heiðar skoraði hins vegar 16 mörk í jafnmörgum leikjum í deildinni fyrir Halmstad á nýafstöðnu tímabili í Svíþjóð þar sem hann varð markahæstur.

Gunnar Heiðar er mjög eftirsóttur þessa dagana enda hefur hann vakið verðskuldaða athygli með frammistöðu sinni hjá Halmstad. Þau lið sem sögð eru hafa í hyggju að kaupa Gunnar eru m.a. skosku liðin Celtic, Rangers og Hearts auk ensku liðanna Southampton og Everton. Þá hafa þýsku liðin Hamburg SPV og Werder Bremen einnig fylgst með honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×