Portúgalinn Cristiano Ronaldo hjá Manchester United gæti átt yfir höfði sér refsingu frá UEFA eftir að hann sýndi löndum sínum í fingurinn þegar hann gekk af velli í tapinu gegn Benfica í Meistaradeildinni. Stuðningsmenn Benfica bauluðu á hann í hvert skipti sem hann snerti boltann í leiknum, en Ronaldo lék áður með erkifjendum Benfica í Sporting Lissabon.
"Málið verður skoðað betur og niðurstöðu er að vænta innan skamms," sagði talsmaður Uefa í samtali við breska blaðið Sun í dag. Ronaldo sjálfur vildi ekki kannast við að hafa gert neitt af sér og átti ekki orð yfir ósvífni landa sinna á pöllunum.