Innlent

Gera athugasemdir við matsáætlanir vegna tveggja virkjana

MYND/Róbert

Samtök ferðaþjónustunnar hafa gert athugasemdir við matsáætlanir Orkuveitu Reykjavíkur vegna jarðgufuvirkjana á Ölkelduhálssvæði og við Hverahlíð á Hellisheiði. Í bréfi frá samtökunum til Skipulagsstofnunar kemur fram að þau telji að þær viðhorfskannanir sem stuðst sé við og eigi að liggja til grundvallar mati á umhverfisáhrifum gangvart ferðaþjónustu og útivist séu alls ófullnægjandi.

Meginkönnunin er frá árinu 2001 og segja Samtök ferðaþjónustunnar hana fjalla um hugsanlega virkjun á öðrum stað og þá benda þau á að engin könnun hafi verið gerð meðal ferðaþjónustufyrirtækja. Óska samtökin eftir því að slík könnun verði gerð meðal þeirra fyrirtækja sem nýti svæðið undir atvinnustarfsemi sína.

Þá segir enn fremur í bréfinu að samtökin telji svæðið afar mikilvægt ferðaþjónustunni vegna skemmri ferða. Í ljósi þess að dvalartími ferðamanna sé almennt að styttast en ráðstefnugestumað fjölga muni skíkum ferðum fjölga. Afar mikilvægt sé við mat á umhverfisáhrifum að bera saman framtíðarhagsmuni ferðaþjónustunnar og arðsemi af virkjun en ekki núverandi hagsmuni ferðaþjónustunnar við framtíðarvirði virkjunar eins og oftast sé gert núna. Samtökin geti því ekki fallist á virkjanirnar tvær að óbreyttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×