Innlent

Vill óháða rannsóknarnefnd vegna leyniþjónustustarfsemi

MYND/E.Ól

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, vill að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd til að kanna umfang leyniþjónustustarfsemi hér á tímum kalda stríðsins. Kemur sú krafa í framhaldi af uppljóstrunum Þórs Whitehead sagnfræðings sem greindi frá í því í grein í ritinu Þjóðmál að slík starfsemi hefði verið á vegum stjórnvalda á tímabilinu.

Í tilkynningu til fjölmiðla segist Ágúst sammála Birni Bjarnassyni dómsmálaráðherra um að gera þurfi upp Kalda stríðið og leiða fram allar þær upplýsingar sem til eru um málið. Bendir Ágúst á að slíkt gæti verið í höndum óháðrar rannsóknarnefndar en Samfylkingin hafi lagt fram frumvarp um slíkar nefndir á síðasta þingi.

Frumvarpið verði lagt fram aftur á komandi þingi „og með samþykkt þess væri hægt að fara þá leið að skipa óháða nefnd sem hefði það verkefni að komast til botns um það hver hvert hlutverk leyniþjónustunnar var, hversu lengi hún starfaði og annars vegar hverjir það voru sem stóðu að henni og hins vegar urðu fyrir rannsókn af hennar hálfu," segir í tilkynningu Ágústs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×