Innlent

Sprengingar hafnar við Héðinsfjarðargöng

Sprengingar eru hafnar við eina dýrustu samgönguframkvæmd sögunnar, Héðinsfjarðargöng. Göngin verða fullbúin eftir þrjú ár.

Héðinsfjarðargöng verða í tvennu lagi milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með viðkomu í eyðifirðinum Héðinsfirði. Göngin verða 3,7 og 6,4 kílómetra löng og munu stytta vegalendinga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar úr 62 kílómetrum í 15 þegar Lágheiðin er fær. Hins vegar er styttingin 219 kílómetrar ef miðað er við að ekið sé frá Ólafsfirði til Siglufjarðar um Öxnadalsheiði. Kostnaður við göngin er sjö milljarðar króna.

En þótt verkefnið sé margumtalað, bæði vegna kostnaðar og umhverfisáhrifa, segja stuðningsmenn þess að göngin gefi Siglfirðingum færi á að sameinast öðrum sveitarfélögum í Eyjafirði eins og þegar er reyndin með Fjallabyggð, sameiginlegu sveitarfélagi Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Þá munu Héðinsfjarðargöng styrkja Eyjafjarðarsvæðið í heild sinni.

Það mun því væntanlega ríkja gleði hjá heimamönnum þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra setur af stað fyrstu formlegu sprenginguna næstkomandi laugardag. Sprengingar eru hins vegar þegar hafnar Siglufjarðarmegin í Skútudal og er búið að borga 40-60 metra samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×