Innlent

Sonja B. Jónsdóttir sækist eftir 4. - 5. sæti

Sonja B. Jónsdóttir myndlistarkennari og kvikmyndagerðarmaður býður sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi þann 4. nóvember n.k. Hún sækist eftir 4.-5. sæti og vill einkum vinna að auknum jöfnuði í samfélaginu, forvarnamálum, bættum hag barna, unglinga, fatlaðra, öryrkja og aldraðra og einnig að fræðslu- og menningarmálum.

Sonja hefur starfað sem blaðamaður, fréttamaður á Sjónvarpinu og ritstýra tímaritsins Veru. Hún rak eigið fyrirtæki, Kvikmyndafélagið Nýja bíó, um tíu ára skeið og gerði þá fjölda sjónvarpsþátta, fræðslu- og heimildamynda. Undanfarin ár hefur Sonja verið í myndlistarnámi við Listaháskóla Íslands og lauk hún kennsluréttindanámi frá þeim skóla að loknu BA-prófi í myndlist. Hún hefur einnig BA-próf í heimspeki og almennri bókmenntafræði.

Sonja hefur setið í stjórnum Alnæmissamtakanna, Samtaka um kvennaathvarf og verið formaður Nýrrar dögunar - samtaka um sorg og sorgarviðbrögð.

Sonja er ein af stofnendum Neslistans á Seltjarnarnesi og hefur tekið þátt í störfum menningarnefndar Seltjarnarness, sem varamaður, undanfarin tvö kjörtímabil. Hún er í stjórn Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi og var í 9. sæti á framboðslistanum í Suðvesturkjördæmi í síðustu Alþingiskosningum.

Sonja telur mikilvægt að í efstu sætum framboðslistans næsta vor verði bæði konur og karlar á öllum aldri og að frambjóðendur komi frá öllum þéttbýliskjörnum kjördæmisins.Hún er sannfærð um að á Seltjarnarnesi eigi Samfylkingin góð sóknarfæri sem og annars staðar í kjördæminu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×