Innlent

Segir hrikta í stoðum kerfisins vegna innflytjendamála

Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, segir hrikta í stoðum kerfisins sem sé ekki tilbúið að taka við auknum fjölda innflytjenda. Hún segir stjórnmálamenn ekki þora að lýsa skoðunum sínum um vanda af málum innflytjenda af ótta við að fá stimpil kynþáttafordóma, sem hefði áhrif á vinsældir og niðurstöðu prófkjöra.

Viðbrögð við ummælum Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varaformanns Frjálslynda flokksins í Silfri Egils í gær vegna atvinnumála innflytjenda á Íslandi hafa verið hörð.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og frambjóðandi í prófkjöri flokksins fyrir þingkosningar, sagði í gær að henni hryllti við viðhorfum Magnúsar og spurði sig hvort stefna frjálslyndra væri að taka upp ískalda þjóðernishyggju.

Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, segir að Íslendingar hafi átt að nýta frest í reglugerð Evrópusambandsins sem stóð til boða í vor vegna flæðis innflytjenda til landsins. Þýskaland og Austurríki nýttu sér meðal annars frestinn til ársins 2011. Hún segir málið viðkvæmt, sérstaklega meðal stjórnmálamanna sem veigri sér við að taka afstöðu af ótta við að vera sakaðir um kynþáttaafordóma. Málið þurfi hins vegar að ræða með umburðarlyndi og mannvirðingu að leiðarljósi. Hún segir það ekki stefnu flokksins að mismuna fólki eftir trúarskoðunum.

Paul Nikolov, frambjóðandi í forvali Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík, segist vera orðlaus vegna ummæla Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Hann segir hræðsluáróður Magnúsar vera kosningavopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×