Fótbolti

Bayern lagði Leverkusen í æsilegum leik

NordicPhotos/GettyImages

Þýskalandsmeistarar Bayern Munchen voru hætt komnir í viðureign sinni við Leverkusen í úrvalsdeildinni í dag, en eftir að hafa lent undir 2-1 þegar 10 mínútur lifðu leiks, náðu meistararnir að snúa leiknum sér í hag og vinna 3-2 á útivelli.

Það var að venju uppselt á BayArena í dag þar sem 22.500 áhorfendur sáu Leverkusen lenda undir 1-0 eftir 33 mínútur þegar Hasan Salihamidzic skoraði fyrir Bayern. Stefan Kiessling jafnaði í upphafi síðari hálfleiks og Brasilíumaðurinn Athirson virtist hafa tryggt heimamönnum sigurinn þegar hann kom Leverkusen í 2-1 þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum. En það var öðru nær, Argentínumaðurinn Martin Demichelis jafnaði leikinn aðeins þremur mínútum síðar og það var svo Claudio Pizzarro sem skoraði sigurmark meistaranna aðeins tveimur mínútum þar á eftir.

Bayern er þó aðeins í fjórða sæti deildarinnar eftir þennan mikilvæga sigur og hefur liðið hlotið 20 stig. Bremen er í efsta sæti deildarinnar með 23 stig, líkt og Schalke, sem hefur lakara markahlutfall. Gunnar Heiðar Þorvaldsson og félagar í Hannover eru enn í fallbaráttunni, þrátt fyrir frábæran 1-0 útisigur á Bayern á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×