Erlent

Norður-Írar ganga að kjörborðinu

Þingkosningar standa nú yfir á Norður-Írlandi og hefur kjörsókn verið jöfn og þétt í allan dag. Fimm ár eru liðin frá því norðurírska þingið kom síðast saman.

Rúm ein milljón Norður-Íra er á kjörskrá en kosið er um 108 þingsæti sem 250 manns bítast um í 18 kjördæmum. Frá því að kjörstaðir voru opnaðir í morgun hafa kjósendur streymt að í allstríðum straumum. Þingið hefur ekki komið saman í fimm ár eftir að ásakanir kviknuðu um að Írski lýðveldisherinn njósnaði um þingmenn en vonir standa nú til að líf færist á ný í Stormont-kastala þann 26. þessa mánaðar.

Samkvæmt skoðanakönnunum nýtur Sambandsflokkur séra Ians Paisley mest fylgis en hann berst ákaft fyrir að Norður-Írland verði áfram hluti Bretlands. Sinn Fein, stjórnmálaarmur IRA fær næst mest fylgi ef marka má sömu kannanir. Verði þetta úrslitin mun Paisley að líkindum verða oddviti heimastjórnarinnar en Martin McGuinness, aðalsamningamaður Sinn Fein hans næstráðandi. Kjörstaði verða opnir til klukkan tíu í kvöld en talning atkvæða hefst aftur á móti ekki fyrr en í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×