Erlent

Chirac styður Sarkozy

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, lýsti í dag yfir stuðningi við Nicolas Sarkozy fyrir forsetakosningar sem fram fara í landinu í vor. Yfirlýsingin hefur mikla þýðingu fyrir Sarkozy því grunnt hefur verið á því góða með þeim Chirac undanfarin ár.

Mánuður er þar til frönsku forsetakosningarnar fara fram en fastlega er búist við að kjósa verði á milli þeirra tveggja efstu hálfum mánuði síðar. Á dögunum greindi Jacques Chirac Frakklandsforseti frá því að hann sæktist ekki eftir endurkjöri. Þá vakti sérstaka eftirtekt að hann lýsti ekki stuðningi við samflokksmann sinn Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra, sem þegar hefur boðið sig fram. Í dag hjó Chirac loks á hnútinn þegar hann tilkynnti að Sarkozy hefði sagt af sér innanríkisráðherraembættinu til að geta helgað sig kosningabaráttunni. Þar vakti hann athygli á að fyrir fimm árum hefði hann beitt sér fyrir því að hægriflokkur þeirra Sarkozy, UMP, tæki upp róttæka umbótastefnu. Því næst sagði hann að flokkurinn styddi Sarkozy í forsetaframboðinu enda væri hann afar hæfileikaríkur. Undir þann stuðning tæki Chirac.

Tólf áru eru frá því að Sarkozy studdi Eduard Balladur í forsetakosningum gegn Chirac og við það lenti hann í ónáð. Þótt yfirlýsing Chiracs í dag hafi í sjálfu sér verið lágstemmd getur hún samt skipt miklu máli fyrir Sarkozy. Skoðanakannanir benda til að verði kosið á milli hans og Segolene Royal í síðari umferð muni hann sigra með um 52 prósent atkvæða. Munurinn getur varla verið minni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×