Erlent

Erkibiskup hvetur til mótmæla

Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, hefur orðið fyrir harðri gagnrýni vegna þess hvernig hann hefur tekið á mótmælunum í landinu.
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, hefur orðið fyrir harðri gagnrýni vegna þess hvernig hann hefur tekið á mótmælunum í landinu. MYND/AFP
Erkibiskup rómversk kaþólsku kirkjunnar í Bulawayo í Zimbabwe, Pius Ncube, hefur skorað á almenning að mótmæla þangað til Robert Mugabe, forseti landsins, segir af sér. Ncube sagðist jafnvel tilbúinn að mótmæla þó svo skothríð lögreglumanna myndi dynja á honum.

Hundruð stjórnarandstæðinga hafa verið handteknir í Zimbabwe síðan 11. mars síðastliðinn en þá reyndu stjórnarandstæðingar að halda bænafund í trássi við bann stjórnvalda við stjórnmálafundum hvers konar.

Ncube sagði ef nógu margir myndu mótmæla gætu her og lögregla ekkert gert. „Ég er tilbúinn til þess að standa fremstur í flokki," sagði hann og bætti svo við „Við verðum að vera reiðubúin til þess að láta í okkur heyra, jafnvel í gegnum hávaða skothríðar."

Erkibiskupinn kenndi umdeildum upptökum á landi í eigu hvítra bænda um ástandið í landinu en verðbólga nálgast nú 1.700 prósent og um 80 prósent landsmanna eru atvinnulausir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×