Erlent

Vilja láta grafa Houdini upp

Afkomendur töframannsins Harrys Houdinis vilja að lík hans verði grafið upp svo hægt verði að kryfja það með nútímatækni. Þeir eru sannfærðir um að hópur spíritista hafi eitrað fyrir töframanninum.

Houdini fæddist í Ungverjalandi 1874 og skírður Erich Weitz. Fjölskylda hans flutti til Bandaríkjanna fjórum árum síðar. Tvítugur að aldri tók hann upp Houdini nafið og hóf að heilla fólk með töfrabrögðum sínum. Þekktastur var hann fyrir að losa sig úr handjárnum, spennitreyjum, keðjum og böndum. Auk alls þessa lék hann í kvikmyndum.

Í október 1926 stærði hann sig af því á sýningu eitt kvöldið að geta þolað þung högg í magan. Hann fékk eitt slíkt án þess að ná að búa sig undir það. Höggið mun hafa sprengt í honum botlangan og valdið lífhimnumbólgu sem dró hann til dauða rúmri viku síðar. Þetta telja afkomendur Houdinis rangt og vilja að lík hans verði grafið upp. Eirtað hafi verið fyrir honum.

Grunur leikur á að hópur andatrúarmanna hafi verið þar að verki, en Houdini var auk töfrabragða þekktur fyrir að afhjúpa svindlara úr hópi spíritista. Joe Tacopina, lögfræðingur afkomenda Houdinis, segir hann hafa fengið morðhótanir og því neyðst til að ráða öryggisverði. Bréf séu til sem sanni að setið hafi verið um líf hans og honum borist hótanir.

Talið er að Houdini hafi verið gefið eitur sem hafi dregið hann til dauða og líkt eftir áhrifum lífhimnubólgu. Tacopina segir að einvhers konar eitur úr þungmálum eins og kvikasilfri geti valdið botlangabólgu sem sé einmitt það sem hafi valdið dauða Houdinis.

Eftir helgi verður þess formlega óskað að lík töframannsins verði grafið upp svo hægt verði að nota nútímatækni til að skera úr um þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×