Erlent

Arabaríkin bjóða Ísrael stjórnmálasamband

Sem fyrr er deilt um Jerúsalem.
Sem fyrr er deilt um Jerúsalem.

Öll Arabaríkin samþykktu í dag að taka upp stjórnmálasamband og eðlileg samskipti við Ísrael, að uppfylltum vissum skilyrðum. Þau eru meðal annars að Ísrael hverfi aftur til landamæranna eins og þau voru fyrir sex daga stríðið árið 1967. Að stofnað verði sjálfstætt ríki Palestínumanna, og að fundinn verði réttlát lausn á málum þeirra araba sem flýðu heimili sín í hinum fjölmörgu stríðum sem Arabar og Gyðingar hafa háð.

Einnig er þess krafist að Austur-Jerúsalem verði höfuðborg hins nýja ríkis Palestínumanna. Þessi tillaga er í meginatriðum eins og tillaga sem Arabaríkin lögðu fram fyrir fimm árum. Ísraelar höfnuðu henni þá. Ísraelar gera athugasemdir við nokkra meginþætti tillögunnar. Þar á meðal eru landamærin og Austur-Jerúsalem.

Bandaríkjamenn hafa fagnað þessu framtaki Arabaríkjanna og talsmaður ísraelskra stjórnvalda segir að þeir séu að skoða tillögurnar til að sjá hvort eitthvað nýtt sé í þeim. Einn mikilvægur punktur er að Arabar tala um réttláta lausn á málum þeirra sem flýðu heimili sín. Ekki að allir flóttamenn fái að snúa þangað aftur. Þessir flóttamenn og þeirra afkomendur telja nú margar milljónir og Ísraelar segja að lýðfræðilega myndi það ganga af ríki þeirra dauðu, þar sem Arabar yrðu í meirihluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×