Erlent

Olmert fagnar friðaráætlun

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels. MYND/AP

Forsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, sagði á fundi með Kadima flokki sínum í kvöld að leiðtogafundur Arabaríkja hefði sýnt að þeir hefðu áttað sig á því að deilurnar við Ísrael væru ekki þeirra stærsta vandamál. Olmert sagði fundinn líka sýna að andrúmsloftið í Mið-Austurlöndum hefði breyst og að nú væri kominn sáttatónn sem hefði ekki verið til staðar áður.

Hann bætti því við að hann væri að fara yfir friðaráætlunina sem að fundurinn hefði lagt til en samkvæmt henni eiga Ísraelar að skila landsvæðinu sem þeir tóku til sín í sex daga stríðinu árið 1967, sjá til þess að palestínskir flóttamenn geti snúið til síns heima og viðurkennt Palestínu sem fullvalda ríki.

Olmert vildi ekki tala um efnisatriði áætlunarinnar en sagði að sáttaandinn sem tilboðið væri gert í væri það mikilvægasta. Hann talaði líka um aukið hlutverk Sádi-Arabíu í Mið-Austurlöndum og fagnaði því leiðtogahlutverki sem Sádar hafa tekið að sér. Bandaríkjamenn hafa fagnað fundinum og hvatt Ísraela til þess að íhuga friðaráætlunina alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×