Erlent

Heilu þorpin fóru á kaf

Að minnsta kosti þrettán fórust þegar risavaxin flóðbylgja sem myndaðist í kjölfar neðansjávarskjálfta skall á Salómonseyjum í Kyrrahafi í gærkvöld. Fjölda fólks er saknað og því er óttast að mun fleiri hafi látist vegna flóðbylgjunnar en fyrstu upplýsingar benda til.

Skjálftinn sem reið yfir Salómonseyjar og nágrenni hans um níuleytið í gærkvöld að íslenskum tíma var afar stór eða 8,1 stig. Upptök hans voru nánast beint undir eyjaklasanum, sem er í vestanverðu Kyrrahafinu, um 350 kílómetra norðvestur af höfuðborginni Honiara. Örskömmu síðar skall tröllvaxin flóðbylgja á ströndum eyjanna, að jafnaði um fjögurra til fimm metra há en sums staðar allt upp í tíu metrar. Hún færði heilu þorpin á kaf og fjölmörg hús eru sögð hafa skolast með henni á haf út. Þegar hefur á annan tug líka fundist en fjölda fólks er ennþá saknað. Því er óttast að mannfall sé mun meira enda segjast sjónarvottar hafa séð lík fljótandi á haffletinum. Yfirvöld á eyjunum segja reyndar mestu mildi hversu langt var liðið á morguninn því þorri eyjaskeggja virðist hafa verið kominn á fætur og náð að forða sér í öruggt skjól. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Ástralíu en níu klukkustundum síðar var henni aflétt þegar ljóst var orðið að áhrif bylgjunnar hefði gætt á takmörkuðu svæði. Salómonseyjar eru á miklu jarðhræringasvæði, Eldhringnum svonefnda, en á sama svæði myndaðist flóðbylgjan á annan dag jóla 2004 sem kostaði hátt í 300.000 mannslíf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×