Erlent

Verður að una niðurstöðu kjörnefndar

Jónas Haraldsson skrifar
Abubakar sést hér veifa til stuðningsmanna sinna á kosningafundi þann 20. desember á síðasta ári.
Abubakar sést hér veifa til stuðningsmanna sinna á kosningafundi þann 20. desember á síðasta ári. MYND/AFP

Áfrýjunardómstóll í Nígeríu úrskurðaði í morgun að kjörnefndin sem hefur umsjón með forsetakosningunum hafi vald til þess að fjarlægja frambjóðendur af framboðsskrá. Úrskurðurinn þýðir að kjörnefndin hafði fullan rétt til þess að taka varaforseta landsins, Atiku Abubakar, af lista frambjóðenda en hann hefur verið ákærður fyrir fjársvik.

Abubakar skipti um stjórnmálaflokk á síðasta ári og vildi forseti landsins þá meina að hann hefði sagt af sér embætti og lýsti því yfir að Abubakar væri ekki lengur varaforseti. Dómstóll setti Abubakar hins vegar aftur í embætti og ætlaði hann sér að verða frambjóðandi stjórnarandstöðuflokks í komandi forsetakosningum.

Kjörnefndin dæmdi þá Abubakar úr leik þar sem hann hefur verið kærður fyrir fjársvik. Abubakar sagði enga lagalega heimild fyrir því að taka nafn hans af lista yfir frambjóðendur og vísaði úrskurði kjörnefndar til áfrýjunardómstóls sem síðan skilaði af sér niðurstöðu í dag. Niðurstaðan varð Abubakar í óhag og svo virðist sem forsetadraumar hans séu á enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×