Erlent

15 ára fangelsi fyrir að skrifa Fogh Rasmussen

Óli Tynes skrifar
Anders Fogh Rasmussen með Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra.
Anders Fogh Rasmussen með Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra.

Saksóknari í Tyrklandi hefur krafist allt að 15 ára fangelsis yfir 53 borgarstjórum sem skrifuðu Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur bréf árið 2005. Í bréfinu báðu þeir Rasmussen um að hlífa kúrdisku sjónvarpsstöðinni Roj-TV sem sendir út á kúrdisku, frá Kaupmannahöfn. Stöðin nær meðal annars til Þýskalands, þar sem býr mikill fjöldi Kúrda.

Ástæðan fyrir aðgerðum tyrkneskra yfirvalda er sú að þau telja sjónvarpsstöðina vera handbendi kúrdisku hryðjuverkasamtakanna PKK, sem hafa framið mörg ódæðisverk í Tyrklandi og víðar. Tyrkir hafa afhent dönskum yfirvöldum sönnunargögn sem eru til rannsóknar hjá dönsku lögreglunni.

Þegar hann frétti af ákærunni á hendur borgarstjórunum, í fyrra, sagði Anders Fogh Rasmussen að honum væri fyrirmunað að skilja hvernig bréf til hans gæti leitt til slíkrar málsmeðferðar. Það sé alvarlegt að slíkt geti gerst í landi sem hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Hann hefur gefið sendiráði Danmerkur í Tyrklandi fyrirmæli um að fylgjast náið með réttarhöldunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×