Erlent

Sjóliðunum sleppt

Írönsk stjórnvöld slepptu í dag bresku sjóliðunum fimmtán sem þau hafa haft í haldi sínu í hartnær hálfan mánuð. Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti kallaði ákvörðunina gjöf til Bretlands en harmaði um leið að breska stjórnin hefði ekki viðurkennt að hafa ráðist inn í íranska lögsögu.

Segja má að þessari sérkennilegu deilu hafi lokið jafn óvænt og hún hófst fyrir tæpum hálfum mánuði síðan þegar sjóliðarnir fimmtán voru teknir í Shatt al-Arab-ósnum vegna meintra landhelgisbrota. Til tíðinda dró á blaðamannafundi sem Ahmadinejad forseti Írans hélt í dag, raunar ekki fyrr en hann var búinn að ræða um landsins gagn og nauðsynjar í hálfa aðra klukkustund. Þá greindi hann frá því að ákveðið hefði verið að falla frá lögsókn á hendur sjóliðunum - enda þótt full ástæða hefði verið til hins gagnstæða - og sleppa þeim. Þetta væri gjöf til Bretlands.

Þessi gjöf sagði forsetinn færða fram þrátt fyrir að breska ríkisstjórnin hefði ekki haft dug í sér til að viðurkenna að sjóliðarnir hefðu siglt inn í íranska lögsögu. Á sinn leikræna hátt biðlaði hann svo til breskra ráðamanna að sýna sjóliðunum miskunn fyrir að hafa játað brot sín í sjónvarpi. Eftir fundinn hitti svo forseti sjóliðana fimmtán, heilsaði þeim og gerði að gamni sínu við þá. Þeir þökkuðu honum á móti fyrir þá mildi sem hann hefði sýnt þeim. Viðbrögð breskra ráðamanna við að deilan væri leyst hafa verið jákvæð en að því er virðist örlítið blendin.

Sjóliðarnir eru nú komnir í breska sendiráðið í Teheran og er búist við að þeir fljúgi til síns heima á morgun




Fleiri fréttir

Sjá meira


×