Erlent

Endurspeglar pólitíska gjá

Sú ákvörðun Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, að sækja sýrlenska ráðamenn heim mælist ekki vel fyrir hjá George Bush Bandaríkjaforseta. Deilan sýnir í hnotskurn gjánna sem skilur að repúblikana og demókrata í Bandaríkjunum.

Pelosi er valdamesti einstaklingurinn úr stjórnkerfi Bandaríkjanna sem heimsækir Sýrland í rúm tvö ár. Kuldi hefur ríkt í samskiptum ríkjanna frá því að Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, var ráðinn af dögum og eftir að stjórnvöld í Washington tóku að saka Sýrlendinga um að kynda undir ólguna í Írak má segja að þau hafi farið vel niður fyrir frostmark. Því þarf ekki að koma á óvart að repúblikanar séu Pelosi gramir fyrir þetta framtak hennar, sem hún segir raunar gert til að fá Sýrlendinga til að leggja sitt af mörkum til að bæta ástandið í Mið-Austurlöndum.

George Bush sagði í gær að með heimsókninni græfi Pelosi undan utanríkisstefnu Bandaríkjanna og léti Assad halda að stjórn hans nyti alþjóðlegrar viðurkenningar þegar hún væri í raun útlagastjórn sem styddi hryðjuverkasamtök um öll Mið-Austurlönd.

Pelosi hefur látið þessa gagnrýni sem vind um eyru þjóta. Í morgun fundaði hún með Bashir Assad, Sýrlandsforseta, og fullyrti í kjölfar þess fundar að hann væri reiðubúinn til friðarviðræðna við Ísraela. Ísraelar svöruðu að bragði að slíkar viðræður færu aðeins fram að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Fáir gera sér grillur um að ferðalag Pelosi skili raunverulegum árangri, það endurspeglar mun fremur valdabaráttuna á milli demókrata og repúblikana, nú þegar hálft annað ár er eftir af kjörtímabili George Bush.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×