Erlent

4.000 manns dönsuðu á Victoria lestarstöðinni

Fleiri en 4.000 manns hittust í gærkvöldi klukkan hálfsex að íslenskum tíma á Victoria lestarstöðinni í Lundúnum til þess að dansa. Engin var þó tónlistin og ekkert var ballið. Fólkið mætti allt með iPod tónlistarspilara og dansaði því hvert eftir sínu lagi. Uppákoman er kölluð skyndi-múgæsing (e. Flash mobbing) og hefur rutt sér til rúms undanfarin ár.

Atburðurinn fer þannig fram að fólk skráir sig á ákveðna vefsíðu sem síðan sendir út skilaboð með viku fyrirvara um hvar skuli hittast næst og dansa. Þegar klukkan fór að nálgast hálfsex fór stöðin að fyllast af fólki. Á slaginu hálfsex fór fólkið að telja niður frá tíu og þegar komið var í núll hófst dansinn. Fólkið dansaði síðan í heila tvo klukkutíma áður en lögregla mætti á staðinn og stöðvaði samkomuna.

Starfsfólk á stöðinni vissi ekki sitt rjúkandi ráð og fólk sem var að reyna að ná lestum brást misvel við hinum 4.000 dönsurum. Skyndi-múgæsingar eins og þessar eru upprunnar í Bandaríkjunum og hófust árið 2003. Fólk fær þá sms eða tölvupóst þar sem það er boðað á ákveðinn stað á ákveðnum tíma og á að gera eitthvað saman. Þegar því er lokið hverfa svo allir á braut, hver í sína áttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×