Erlent

Ísland og Indland í samstarf um jarðskjálftarannsóknir

Sendiherra Íslands á Indlandi, Dr. Gunnar Pálsson, og ráðuneytisstjóri vísindamálaráðuneytis Indlands, Dr. T. Ramasani, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf Íslands og Indlands á sviði jarðskjálftarannsókna.

Í yfirlýsingunni er kveðið á um fyrsta áfanga samstarfsins sem felst í samvinnu íslenskra og indverskra jarðvísindamanna um undirbúning og þróun langtímaverkefnis í jarðskjálftarannsóknum, einkum með tilliti til þess hvernig spá megi fyrir um jarðskjálfta.

Veðurstofa Íslands mun annast samstarfið fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri tengjast verkefninu, auk utanríkisráðuneytisins sem undirbúið hefur viljayfirlýsinguna og standa mun straum af kostnaði.

Íslenskir jarðskjálftasérfræðingar hafa á undanförnum árum haft forystu um að þróa tækni fyrir jarðskjálftaspár sem vakið hefur athygli víða um lönd. Aðferðin byggir í grundvallaratriðum á svokölluðum smáskjálftamælingum, þ.e.a.s. vöktun nær samfelldra smáskjálfta í jarðskorpunni til að fylgjast með breytingum, og fjölbreytilegum rannsóknum á sviði jarðvísinda með það að markmiði að spá fyrir um jarðskjálfta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×