Erlent

Vilja ekki að hermenn hagnist persónulega

Turney seldi sögu sína til dagblaðsins Sun og ITV1 og fékk um milljón pund fyrir.
Turney seldi sögu sína til dagblaðsins Sun og ITV1 og fékk um milljón pund fyrir. MYND/AFP
Breska varnarmálaráðuneytið ætlar sér að endurskoða reglur sínar varðandi það að gefa hermönnum og fyrrum starfsfólki leyfi til þess að selja sögur sínar til fjölmiðla. Mikil umræða varð um málið í Bretlandi í kjölfar þess að ákveðið var að leyfa sjóliðunum sem Íranar handtóku að selja fjölmiðlum sögur sínar.

Faye Turney, konan sem var í hópnum, var ein þeirra sem seldi sögu sína. Hún gerði samning við ITV1 og dagblaðið Sun. Hermt er að hún hafi fengið allt að milljón pund fyrir.

Ættingjar hermanna sem hafa látið lífið í Írak og Afganistan hafa gagnrýnt ákvörðun varnarmálaráðuneytisins. Móðir Eleanor Dlugosz, 19 ára stúlku sem lét lífið í Írak, sagði að dóttir sín hefði ekki viljað hagnast persónulega á reynslu sinni sem hermaður. Ef hún hefði tekið peninga fyrir að segja sögu sína hefði hún gefið þá til styrktarsamtaka.

Ritstjóri Sun, Tom Newton-Dunn, hefur varið ákvörðun sína um að borga Turney fyrir að segja sögu sína. „Hún hefur fullan rétt á því að gera þetta. Við búum í frjálsu landi. Faye lenti í ótrúlegri atburðarás, sem augljóslega er mjög áhugaverð." Turney hefur varið ákvörðun sína og segist ætla að gefa ákveðna prósentu af upphæðinni til skipverja á HMS Cornwall og fjölskyldna þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×