Erlent

Níu handteknir eftir hnífabardaga

Níu hafa verið handteknir eftir hnífabardaga fyrir utan næturklúbb í Álaborg í Danmörku um helgina. Tuttugu og eins árs karlmaður sem reyndi að skakka leikinn lét lífið eftir að hafa orðið fyrir ítrekuðum hnífsstungum.

Átökin brutust út á Tiger næturklúbbnum í Álaborg aðfaranótt sunnudags. Tvær klíkur höfðu fyrr um kvöldið haldið saman samkvæmi í Álaborg og síðan var haldið út á lífið.

Þegar á skemmtistaðinn kom skarst í odda með nokkrum úr annarri klíkunni og hóp ungra manna. Engum togum skipti að hnífar voru teknir upp og fljótlega var allt komið í háaloft. Tuttugu og eins árs maður sem reyndi að stöðva átökin lést af stungusárum.

Hann fannst liggjandi í blóði sínu fyrir utan söluturn í nágrenninu, en hafði þá misst of mikið blóð til að hægt væri að bjarga honum. Sex aðrir slösuðust, þar af nokkrir alvarlega. Tveir árásarmannanna flýðu til Svíþjóðar eftir atvikið, en rauður Ferrari bíll þeirra fannst skömmu yfirgefinn í Malmö síðar um nóttina. Lögregla gaf út viðvörun vegna mannanna í fjölmiðlum og í gær gáfu þeir sig svo fram við lögregluna í Kaupmannahöfn.

Ekki eru þó nægar sannanir gegn þeim til að halda þeim í gæsluvarðhaldi á meðan málið verður rannsakað frekar. Alls hafa níu manns verið handteknir vegna málsins, en lögreglan í Danmörku vill lítið gefa upp að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×