Erlent

Spennan vex á milli Súdana og Tsjada

Súdanska ríkisstjórnin sakar stjórnarher Tsjad um að hafa ráðist á hermenn sína innan landamæra Súdans í gær og hótar grimmilegum hefndum. Hundruð hafa týnt lífi í ofbeldisverkum á svæðinu undanfarna daga.

Alger vargöld hefur ríkt á landamærum Tsjads og Súdans um alllangt skeið. Hið stríðshrjáða Darfur-hérað í Súdan er austan þeirra þar sem 400.000 manns eru sagðir hafa látið lífið í ofbeldisverkum undanfarin fjögur ár. Hundruð þúsunda manna hafast við í flóttamannabúðum í Tsjad og á þær gera herflokkar af arabísku bergi brotnu árásir yfir landamærin. Í morgun greindi til dæmis talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Tsjad frá því að 400 manns hefðu að líkindum látið lífið þegar liðsmenn hins illræmd Janjaweed-flokks gerðu árásir á tvö þorp í Austur-Tsjad fyrir tíu dögum.

Átökin í gær eru angi af þessum sama meiði. Stjórnvöld í Tsjad segjast hafa verið að hrinda árásum herflokka, studdum af stjórnvöldum í Súdan, og þverneita að hafa farið yfir landamærin. Stjórnin í Kartúm sakar Tsjada hins vegar um að hafa farið langt inn í Súdan og fellt þar sautján súdanska hermenn og sært hátt í fjörtíu. Talsmaður hersins sagði í morgun að þessum árásum yrði svarað af fullum þunga, bæði með stjórnmálalegum og hernaðarlegum aðferðum. Samskipti ríkjanna hafa verið stirð undanfarin misseri enda hefur ófriðurinn í Darfur haft veruleg áhrif á Tsjad. Óttast er spennan á milli þeirra sé að færast á nýtt stig, nú þegar vísbendingar eru um að herir ríkjanna eigi í beinum átökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×