Erlent

Fær ekki fósturvísana

Síðasti vonarneisti breskrar konu um að verða barnshafandi dó út í dag þegar Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp þann dóm að hún fengi ekki að nota fósturvísa úr fyrra hjónabandi sínu.

Forsaga þessa dæmalausa máls er sú að árið 2001 greindist Natallie Evans með krabbamein í eggjastokkum og því varð að fjarlægja þá úr henni. Áður en það var gert létu hún og eiginmaður hennar hins vegar frjóvga egg og frysta sex fósturvísa. Nokkru síðar skildu þau og um leið dró eiginmaðurinn samþykki sitt til notkunar fósturvísanna til baka. Bresk lög krefjast þess að samþykki beggja foreldra liggi fyrir á öllum stigum, annars ber að eyða fósturvísunum. Að mati Evans var brotið á mannréttindum hennar með því að taka af henni eina tækifærið hennar til að eignast börn og auk þess væri mismunun fólgin í að ákvörðunin væri í raun algerlega í höndum fyrrverandi eiginmanns síns. Lögfræðingar hans bentu aftur á móti á að óverjandi væri að gera hann að föður, og þar með framfærsluskyldan, gegn sínum vilja við þessar kringumstæður. Hvorki breskir dómsstólar né Mannréttindadómstólllinn í Strassborg féllust á kröfur Evans og í dag komst sérstakur áfrýjunardómsstóll að sömu niðurstöðu, ekki hafði verið brotið á rétti hennar með að neita henni um að nota fósturvísana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×