Erlent

Krefjast framsals Beresovskís

Rússnesk yfirvöld hafa óskað eftir því við bresku ríkisstjórnina að þau framselji auðkýfinginn Boris Berezovskí vegna áforma hans um að steypa Vladimír Pútín af stóli.

Beresovksí er einn þeirra manna sem auðgaðist mjög í kjölfar hruns Sovétríkjanna og samband hans við valdhafana í Kreml var lengi vel gott. Árið 2001 slettist hins vegar upp á vinskapinn hjá þeim Vladimir Pútín Rússlandsforseta og flúði Beresovskí þá land. Undanfarin ár hefur hann haft notið hælis sem pólitískur flóttamaður í Bretlandi og þaðan hefur hann gagnrýnt rússnesk stjórnvöld harðlega. Fyrir helgi lýsti Beresovskí þeirri skoðun sinni við breska blaðið Guardian að einungis væri hægt að koma Pútín frá með valdi og hann væri í sambandi við áhrifamenn í Rússlandi sem væru sama sinnis. Þessi ummæli hafa mælst illa fyrir innan Kremlarmúra og því óskaði ríkissaksóknari Rússlands eftir framsali Beresovskís í dag.

Ólíklegt er að Bretar verði við þessari beiðni enda nýtur Beresovskís verndar Genfarsáttmálans sem pólitskur flóttamaður. Annars standa ýmis spjót á Vladimír Pútín um þessar mundir. Skákmeistarinn Garrí Kasparoff stóð fyrir fjölmennri kröfugöngu í Moskvu á laugardaginn sem lyktaði með handtöku hans og í gær kom til átaka í Pétursborg á milli lögreglu og mótmælenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×