Erlent

BNA bjóða Rússum að skoða eldflaugastæði

Óli Tynes skrifar

Bandaríkjamenn eru reiðubúnir að leyfa Rússum að skoða eldflaugavarnastöð sem þeir ætla að setja upp í Póllandi, til þess að sannfæra Rússa um að hún ógni ekki hagsmunum þeirra. Bandaríkjamenn vilja setja upp tíu eldflaugar í Póllandi og ratsjárstöð í Tékklandi fyrir árið 2012.

Eldflaugarnar eiga að verja Bandaríkin og bandalagsríki þeirra fyrir eldflaugum frá Íran og Norður-Kóreu. Rússar eru tortryggnir. Þeir segja að hvorki Íran né Norður-Kórea eigi nógu langdrægar eldflaugar til þess að ná til Bandaríkjanna eða Evrópu. Eldflaugunum í Póllandi hljóti því að vera beint gegn þeim.

Bandaríkjamenn benda á móti á að eldflaugarnar í Póllandi verði svo fáar að þær væru eins og dropi í hafið gagnvart eldflauga-vopnabúri Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×