Erlent

Söguleg bankaviðskipti

Samið var um ein stærstu kaup í sögu bankaviðskipta í morgun þegar tilboð breska Barclays bankans í hollenska bankann ABN AMRO var samþykkt. Kaupverðið nemur jafnvirði sex þúsund milljarða íslenskra króna. Royal Bank of Scotland gæti þó boðið betur og bolað Barclays frá samningaborðinu.

Forsvarsmenn breska bankans Barclays tilkynntu í morgun að tilboð þeirra hefði verið samþykkt. Yfirtakan yrði sú stærsta í sögu bankaviðskipta en talið að verðmæti samningsins nemi um sextíu og sjö milljörðum Evra eða um sex þúsund milljörðum íslenskra króna. Forsvarsmenn ABN AMRO hafa þó samþykkt að funda með fulltrúum Royal Bank of Scotland, sem vilja einni bjóða í bankann í samvinnu við aðra aðila. Talið er að þeir reyni að bjóða betur en þrátt fyrir það telja sérfræðingar að kaup Barclays gangi í gegn.

Samkvæmt tilboðinu frá í morgun fá hlutafjáreigendur í ABN AMRO hlut í Barclays bankanum. Hlutafjáreigendur Barclays eignast um fimmtíu og tvö prósent hlutafjár í nýjum sameinuðum banka. ABN AMRO nafnið yrði aflagt og notast einvörðungu við Barclays nafnið.

Útibú ABN AMRO í Bandaríkjunum yrðu seld bandaríska bankanum LaSalla fyrir jafnvirði þrettán hundruð milljarða íslenskra króna. Nýr sameinaður banki yrði einn sá allra stærsti í heimi með um fjörutíu og sjö milljón viðskiptavini. Mikil hagræðin yrði með sameiningunni að sögn fulltrúa bankanna. Talið er að tæplega þrettán þúsund starfsmönnum yrði sagt upp og tæplega ellefu þúsund til viðbótar færðir til í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×