Erlent

Litríkur forseti látinn

Boris Jelsín, fyrrverandi forseti Rússlands.
Boris Jelsín, fyrrverandi forseti Rússlands.

Boris Jeltsín varð forseti Rússlands á miklum umbrotatímum. Óhætt er að segja að hann á sér bæði ótalda aðdáendur og fjendur. Jeltsín var litríkur maður. Honum þótti sopinn góður og tók sér mikil völd. En enginn efaðist um persónulegt hugrekki hans. Það sýndi hann fyrst opinberlega þegar hann bauð skriðdrekum byrginn fyrir framan þinghúsið og losaði um kverkatak kommúnistaflokksins á þjóðinni.

Jeltsín var brokkgengur á pólitískum ferli sínum. Hann varð fyrsti þjóðkjörni leiðtogi Rússlands og gegndi því embætti í tvö kjörtímabil, frá 1991 til 1999. Efnahagslegar umbætur hans þóttu ekki allar góðar og efnahagur Rússlands hrundi. Það ríkti einskonar villta-vesturs ástand. Litlir hópar útvalinna auðguðust , en almenningur bjó við kröpp kjör.

Allt sitt valdatímabil átti hann í harðri baráttu við þjóðernissinna sem vildu hverfa aftur til kommúnismans. Þeir reyndu að gera uppreisn og árið 1993 víggirtu þeir sig í þinghúsinu og reyndu að yfirtaka ríkissjónvarpið. Yeltsin skipaði hernum að ráðast á þinghúsið og skriðdrekar létu skothríðina dynja á því þartil uppreisnarmenn gáfust upp.

Jeltsín kallaði aftur til skriðdreka árið 1994 þegar herinn réðist inn í Tsjetseníu. Þar mistókst hinsvegar að fá þá andstæðinga til þess að gefast upp. Það ríkti óöld í Rússlandi. Leigumorð voru algeng og spilling var mikil.

Engu að síður tókst Jeltsín að sitja út tvö kjörtímabil og selja þá völdin í hendurnar á Vladimir Putin, sem hann hafði sjálfur valið sem eftirmann sinn. Síðustu árin var Yeltsín heilsuveill og hafði sig lítt í frammi. Hann varð 76 ára gamall.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×