Erlent

Til marks um uppgang þjóðernissinna

Guðjón Helgason og Guðný Jóhannesdóttir skrifar

Um 800 mótmælendur hafa verið handteknir og 150 særst í átökum við lögreglu í Eistlandi vegna deilna um minnismerki um fallna hermenn í síðari heimsstyrjöldinni. Íslendingur sem búsettur er í landinu segir átökin til marks um uppgang þjóðernissinna í Eistlandi.

Minnismerkið er til marks um afrek Rauða hersins í seinni heimsstyrjöldinni og hefur staðið í Tallinn í áratugi. Það var fjarlægt í gær samkvæmt ákvörðun eistneskra yfirvalda sem segja að það verði sett á annan stað en í miðborginni. Eistar sem eru af rússneskum uppreina og telja um þriðjung þjóðarinnar eru allt annað en sáttir við þetta en flestir Eistar segja merkið hafa verið tákn um kúgun Sovétmanna.

Til harðra átaka hefur komið tvær nætur í röð. Um 800 mótmælendur hafa verið handteknir og um 150 særst.

Bragi Gunnarsson er giftur eistneskir konu af rússneskum ættum og eiga þau 18 ára son. Fjölskyldan er búsett í Narva í Eistlandi nærri landamærunum að Rússlandi. Bragi er nú staddur á Sauðárkróki en kona og sonur í Eistlandi. Bragi segir að lokað hafi verið fyrir svæðið þar sem fjölskylda hans sé en þar séu um 85% íbúa af rússnesku bergi brotnir. Fólk þaðan komist nú ekki til höfuðborgarinnar og ekki heldur yfir til Rússlands því landamærin séu lokuð.

Bragi segir erfitt að fylgjast með ástandinu úr fjarska, fjarri fjölskyldunni. Hann vilji helst komast heim.

Bragi segir atburðina síðustu daga til marks um uppgang þjóðernissinna í Eistlandi. Rót vandans sé sú að eistneskir þjóðernissinnar hafi, allt frá hruni Sovétríkjanna og jafnvel fyrr, barist gegn fólki sem eigi ættir að rekja til Rússlands. Það sé þó í raun fætt í Eistlandi en ríkisfangslaust þar.

Lögregla í Eistlandi er búin undir frekari átök við mótmælendur í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×