Erlent

Breski verkamannaflokkurinn tapar miklu fylgi

Jónas Haraldsson skrifar
Frá einum kjörstaðanna í gær.
Frá einum kjörstaðanna í gær. MYND/AFP
Verkamannaflokkurinn breski hefur tapað miklu fylgi í sveitastjórnarkosningum í Englandi sem fram fóru í gær. Þá tapaði hann einnig fylgi í þingkosningum í Skotlandi og Wales. Engu að síður tapaði hann ekki jafn miklu fylgi og stjórnmálaskýrendur höfðu spáð.

Í Skotlandi er enn of mjótt á munum til þess að hægt sé að úrskurða um sigurvegara kosninganna. Mikil vandræði voru með kosningakerfið þar í landi. Helsti andstæðingur verkamannaflokksins, skoski þjóðarflokkurinn, hefur bætt töluvert við sig. Engu að síður er talið að flestir Skotar vilji ekki sjálfstæði frá Englandi.

Í Wales er talið líklegt að verkamannaflokkurinn tapi meirihluta sínum á þingi. Þrátt fyrir það verður hann að öllum líkindum enn stærsti flokkurinn.

Í Englandi, í þeim kjördæmum sem talið hefur verið í, hefur Íhaldsflokkurinn fengið 41% atkvæða. Þeir segja að flokkurinn sé á siglingu til sigurs í næstu þingkosningum.

Talsmaður Verkamannaflokksins sagði að kosningarnar hefðu ekki farið vel. Engu að síður sagðist hann ekki sjá nein merki um að íhaldsmenn væru að bæta verulega við þig.

Enn á eftir að telja í rúmlega helming kjördæma í Englandi. Búist er við lokatölum seint í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×