Erlent

Wolfowitz hættir 30. júní

Jónas Haraldsson skrifar
Wolfowitz hættir þann 30. júní næstkomandi.
Wolfowitz hættir þann 30. júní næstkomandi. MYND/AP

Paul Wolfowitz, forseti Alþjóðbankans, ætlar að segja starfi sínu lausu vegna deilu um að hann hafi útvegað kærustu sinni stöðu- og launahækkun.

Málið byrjaði þegar í ljós kom að Wolfowitz hafi haft hönd í bagga með stöðu- og launahækkun kærustu sinnar. Eftir aðkomu hans hafði hún hærri laun en Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Eftir langar viðræður við stjórn bankans ákvað Wolfowitz að hætta 30. júní. Fjölmargir, þar á meðal stjórnarmeðlimir, kröfðust afsagnar hans vegna málsins. Hvíta húsið studdi þó ávallt Wolfowitz og sagði í gær að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, samþykkti ákvörðun Wolfowitz með mikilli eftirsjá.

Alþjóðabankinn sagði að leitin að eftirmanni Wolfowitz hæfist samstundis. Í tilkynningu frá stjórn bankans kom fram að hún hefði tekið útskýringar Wolfowitz á athæfi sínu trúanlegar. Hann sagðist hafa staðið að stöðu- og launahækkun kærustu sinnar í góðri trú. Stjórn bankans viðurkenndi að í ferlinu hefðu mörg mistök verið gerð.

Wolfowitz sagði afsögn sína þjóna hagsmunum bankans. Starfsmannafélag bankans var á meðal þeirra sem kröfðust afsagnar hans og fagnaði það ákvörðun hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×