Erlent

Breytt viðhorf Kína til Darfur

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Börnum flóttamanna frá Darfur gefið að borða í flóttamannabúðum.
Börnum flóttamanna frá Darfur gefið að borða í flóttamannabúðum. MYND/AFP
Framtíð hins stríðshrjáða Darfur héraðs í Súdan verður líklega ákveðin þúsundum kílometra í burtu frá landinu. Og þar koma ekki við sögu Bandaríkin eða Sameinuðu þjóðirnar. Í þetta sinn er það Kína sem leikur lykilhlutverk og það er áminning um vaxandi áhrif Kína í alþjóðasamfélaginu. Kína hefur mikilla olíuviðskiptahagsmuna að gæta í Súdan og hefur verið ásakað um að koma í veg fyrir að endi verði bundinn á ofbeldið í Darfur. Leiðtogar í Kina hafa þráast við þrátt fyrir aukinn þrýsting alþjóðasamfélagsins. Þeir beittu meðal annars neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn viðskiptaþvingunum á Súdan. En nú virðist vera breyting á viðhorfi þeirra en nýverið var skipaður embættismaður sem á að sjá um mál í Afríku. Hann mun beita sér að mestu fyrir málefnum í Darfur. Kína sendi Súdan óvenju harðan tón í síðasta mánuði vegna friðargæsluáforma Sameinuðu þjóðanna í Darfur. Yfirvöld í Peking hafa einnig tilkynnt að þeir muni senda næstum 300 hernaðartæki- og tól til að hjálpa til við alþjóðlega friðargæslu í héraðinu. Á fréttavef BBC segir að Sameinuðu þjóðirnar áætli að 200 þúsund manns hafi látist og tvær milljónir horfið í Darfur héraði síðan árið 2003. Tengsl landanna tveggja eiga sér langa sögu. Um áratuga bil hafa löndin átt sterk pólitísk, viðskipta- og hernaðartengsl. Kínverjar eru stærstu viðskiptaaðilar Súdana. Þeir hafa eytt milljónum dollara í að byggja upp olíuiðnað í Súdan. Af 500 þúsund olíutunnum sem framleiddar eru á hverjum degi í Súdan, fer megnið til Kína. Kína hefur líka um árabil selt vopn til landsins og bauðst fyrr á árinu til að auka hernaðarsamvinnu við Khartoum. Þess vegna hafa yfirvöld í Kína verið ófús til að þrýsta á Súdan vegna ástandsins í Darfur. Það gæti grafið undan samskiptunum millil landanna. Stjórnmálaskýrendur velta því nú fyrir sér hvort þetta útspil Kína sé bragð til að auka almenningsálit á alþjóðavettvangi, eða til að róa gagnrýnendur landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×