Erlent

Bush svarar fyrir sig -harkalega

Óli Tynes skrifar
Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. MYND/AP

George Bush hefur loksins svarað sífellt harkalegri gagnrýni Jimmys Carter fyrrverandi forseta á sig og forsetatíð sína. Carter sem er demókrati hefur meðal annars sagt að Bush sé versti forseti sem Bandaríkin hafi nokkrusinni átt. Carter húðskammaði einnig Tony Blair fyrir stuðning hans við Bush.

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag brást Tony Fratto, blaðafulltrúi forsetans við þessum árásum. Hann sagði að harkaleg persónuleg gagnrýni Carters væri sorgleg. "Ég held að þetta sé óheppilegt," sagði Fratto. "Og ég held að hann skipti sífellt minna máli með þessar athugasemdir sínar."

Jimmy Carter sat aðeins eitt kjörtímabil á stóli forseta og þótti ekki sérlega röggsamur. Gagnrýnendur hans segja að hann hafi hunskast úr embætti með skottið á milli lappanna, án þess að honum tækist að fá lausa gíslana sem Íranar tóku í bandaríska sendiráðinu í Teheran. Gíslunum var haldið í 444 daga.

Carter er mjög trúhneigður maður og hefur unnið að góðgerðarmálum síðan hann lét af embætti forseta. Fyrir það hefur hann meðal annars hlotið friðarverðlaun Nóbels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×