Erlent

Öðrum ráðherra rænt

Að minnsta kosti fimm manns hafa fallið í loftárásum Ísraelshers á Gaza-ströndina það sem af er degi. Þá var einum af ráðherrum palestínsku heimastjórnarinnar rænt á Vesturbakkanum í morgun.

Ráðherrann er liðsmaður Hamas-samtakanna og heitir Wasfi Kabha en hann fer með samskipti Palestínumanna vð ísraelska landnema á herteknu svæðunum. Eiginkona hans sagði í samtali við arabísku sjónvarpsstöðina al-Jazeera í morgun að ísraelskir hermenn hefðu ruðst inn á heimili þeirra í Jenín á Vesturbakkanum og numið mann sinn á brott. Kabha er annar ráðherrann sem Ísraelar taka höndum á þremur dögum en í fyrradag rændu þeir menntamálaráðherra heimastjórnarinnar ásamt 32 Hamas-liðum á Vesturbakkanum.

Á Gaza-ströndinni hélt Ísraelsher svo uppteknum hætti með loftárásum sínum á skotmörk sem tengjast Hamas-samtökunum. Fimm manns létu lífið og þrjátíu særðust í árás sem gerð var í morgun á höfuðstöðvar hernaðararms þeirra. Leikskóli í næsta húsi skemmdist nokkuð í árásinni en börnunum í skólanum tókst að komast í öruggt skjól. Ísraelar segja þessar loftárásir svar við ítrekuðum flugskeytaárásum yfir landamærin. Þær voru gerðar nokkrum klukkustundum eftir að Hamas-menn og aðrir herskáir hópar í Palestínu lýstu því yfir að þeir ætluðu að taka til skoðunar tillögur um vopnahlé sem Mahmoud Abbas forseti lagði fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×