Erlent

Kínverjar ögra stefnu um eitt barn

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
MYND/Getty Images

Það færist í vöxt í Kína að almenningur komist hjá stefnu stjórnvalda um eitt barn á fjölskyldu með frjósemislyfjum. Stefna stjórnvalda er sú að kona geti aðeins fætt einu sinni. Fjölburafæðingum hefur hins vegar fjölgað mjög síðustu ár, sérstaklega þar sem aðgengi að frjósemislyfjum er auðvelt.

Víða á landbúnaðarsvæðum er eitt barn á fjölskyldu ekki nóg til að hjálpa til við reksturinn. Á fréttavef BBC segir að þess vegna bregði fólk á það ráð að taka frjósemislyfin. Opinberlega sé það ekki rætt, en í lokuðum hópum sé viðurkennt að aðferðinni er beitt til að komast hjá stefnu stjórnvalda.

Lögin voru innleidd árið 1980 þegar stjórnvöld óttuðust að ekki væri hægt að fæða fjölgandi þjóð.

Þeim er oft fylgt harkalega og sumar konur eru teknar úr sambandi eftir að eignast sitt fyrsta barn. Aðrar konur eru sektaðar eða þvingaðar í fóstureyðingar verði þær ófrískar öðru sinni.

Þó eru undantekningar á reglunni. Þjóðernisminnihlutum er heimilt að eignast fleiri en eitt barn. Og í miklu dreifbýli er fjölskyldum leyfilegt að reyna að eignast son ef fyrsta barnið er stúlka.

Gremja meirihlutans sem fellur undir stefnuna fer vaxandi og fleiri neita að ríkið geti sagt þeim fyrir verkum. Frjósemislyf virðast því vera lausn þessa hóps þar til breyting verður á lögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×