Erlent

Ráðist að samkynhneigðum

Rússneska lögreglan handtók í dag hóp fólks sem barðist fyrir réttindum samkynhneigðra í landinu. Áður höfðu öfgamenn ráðist að þeim með barsmíðum, en enginn þeirra var tekinn höndum.

Fólkið ætlaði að afhenda Júrí Luzhkoff borgarstjóra Moskvu skjal undirritað af þingmönnum á Evrópuþinginu þar sem skorað var á hann að leyfa hommum og lesbíum að halda gleðigöngu í höfuðborginni í tilefni þess að fjórtán ár eru liðin frá því að banni við samkynhneigð í landinu var aflétt. Áður en þeir gátu afhent skjalið var ráðist að fólkinu með eggjakasti og barsmíðum, einn sá fyrsti sem var laminn var Richard Fairbrass, söngvari hljómsveitarinnar Right Said Fred.

Peter Tatchell, baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra fékk næstur að kenna á því. Lögregla lét hins vegar barsmíðarnar óátaldar, nokkuð sem viðstaddir áttu bágt með að trúa.

Lögreglan skarst loks í leikinn, en ekki til að handtaka óróaseggina heldur þá sem stóðu fyrir göngunni, þar á meðal Tatchell. Alls voru tuttugu handteknir og verða þeir leiddir fyrir dómara á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×