Erlent

Velta minni eftir bann

Guðjón Helgason skrifar

Reykingabann á opinberum stöðum er í gildi víða. Bannið hefur haft áhrif á veltu veitingastaða í Noregi og knæpurekstur í dreifbýli á Írlandi.

Reykingar eru bannaðar á veitingastöðum og knæpum víða um heim. Árið 2004 tók slíkt bann gildi í Noregi og á Írlandi og ári síðar í Svíþjóð. Þar eru þó reykherbergi leyfð með skilyrðum. Bann tók gildi í Skotlandi í fyrra og í apríl á þessu ári í Wales og á Norður-Írlandi. Finnar fylgja okkur Íslendingum í dag - þar er þó einhverjum stöðum veitt tveggja ára aðlögun. Englendingar banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum í næsta mánuði.

Ósvald Ólafsson, veitingamaður, rekur veitingastaði í Kristiansand í Noregi. Hann segir veltu hafa lækkað um 65 til 70% frá banni. Þeir staðir sem ekki geti boðið upp á veitingar utandyra hafi orðið verst úti. Hann segist í vanda með eigin rekstur vegna þessa.

Ósvald segir Norðmenn hafa fylgt banninu og það sé ólíkt betra að koma inn á veitingastaði og bari eftir að það tók gildi. Loftið sé betra. Hann segir þó að réttast hefði verið að gæta jafnræðis milli staða sem geti og geti ekki boðið veitinga utandyra.

Robert Christie, almannatengill, er frá Skotlandi en býr í Dyflinni á Írlandi. Hann segir reynslu skoskra og írskra veitingamanna svipaða og starfsbræðra þeirra í Noregi. Hann segir þó munurinn á dreifbýli og þéttbýli á Írlandi athyglisverðan. Barir á landsbyggðinni hafi orðið illa úti vegna bannsins. Margt geti skýrt það eins og tildæmis að ferðamenn séu færri á veturna og auk þess þurfi íbúar í dreifbýli að fara lengri veg til að fá sér bjór en þeir sem séu í bænum - því sitji þeir oft heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×