Erlent

VVRRRÚÚÚÚÚMMMMMMMM

Óli Tynes skrifar
"Catch me if you can.“
"Catch me if you can.“
Átján ára strákur á körtu stakk af sjö sérbúna BMW bíla lögreglunnar í þýska bænum Mönchengladbach í dag. Talsmaður lögreglunnar sagði að þeir hefðu elt hann í gegnum bæinn en kartan hefði getað tekið svo krappar beygjur að löggubílarnir hefðu ekki haldið í við hana.

Eftir fimm kílómetra eltingaleik stakk strákurinn sér inn í opinn bílskúr og reyndi að fela sig þar. En þegar hann var orðinn kyrrstæður náði hinn langi armur laganna í hann.

„Hann sagði að hann vissi að það væri ólöglegt að keyra körtur á götum bæjarins," sagði talsmaður lögreglunnar.“ En hann var nýbúinn að kaupa hana af vini sínum og kunni ekki aðra leið til að koma henni heim."

Þess má geta að tveir Formúlu 1 ökumenn búa í Mönchengladbach. Það eru þeir Nick Heidfeld og Heinz-Harald Frentzen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×