"Við fórum með þennan leik á vítalínunni og það var munurinn á liðunum í kvöld," sagði Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur eftir 82-80 tap hans manna gegn KR í kvöld.
Eins og fram kom í máli þjálfarans fóru Grindvíkingar illa með vítin sín í lok þessa spennandi leiks, en KR-ingar voru þó vel að sigrinum komnir eftir að hafa verið skrefinu á undan allan leikinn.
KR var yfir 71-55 fyrir lokaleikhlutann, en gestirnir sýndu góða baráttu og komust inn í leikinn á ný undir lokin.
"Ég er ánægður með mína stráka eftir að þeir lentu 15-16 stigum undir en við hefðum átt að setja þessi víti okkar niður," sagði Friðrik í samtali við Vísi.
Við spurðum hann út í leik Páls Axels Vilbergssonar sem hefur verið besti maður Iceland Express deildarinnar í fyrstu umferðunum, en hafði hægt um sig í kvöld með 12 stig og frekar slaka skotnýtingu. Hann var með 33,6 stig að meðaltali í leik fyrir leikinn í kvöld.
"Við vorum að spila á móti mjög góðu varnarliði en þegar Páll Axel er í strangri gæslu verða aðrir auðvitað að stíga upp. Það er enginn heimsendir þó hann detti niður í 12 stig - við eigum að geta lifað með því," sagði Friðrik.
Grindvíkingar léku án Arnars F. Jónssonar leikstjórnanda sem tók út leikbann í kvöld.
"Auðvitað söknum við Arnars, en ég held að við höfum spilað ágætlega úr okkar spilum engu að síður. Það vantaði bara herslumuninn hjá okkur," sagði Friðrik og sagðist hlakka til að mæta KR-ingum í Grindavík.
"Við eigum eftir að mæta þeim sterkari en við vorum í kvöld. Við vorum ekki að spila alveg eins og ég vildi að við spiluðum í kvöld, en ég lofa því að við munum mæta þeim af fullum þunga í næsta leik."
Körfubolti