Innlent

Luku lofsorði á lán Færeyinga

MYND/GVA

Þingmenn luku í dag lofsorði á þá ákvörðun Færeyinga að bjóða Íslendingum lán vegna þeirra erfiðleika sem gengið hefðu yfir.

Það var Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, sem tók málið upp í umræðum um störf þingsins. Sagði hann Fæeyringa hafa sýnt mikinn drengskap og veglyndi og það snerti streng í hjörtum Íslendinga. Benti hann á að algjör pólitískur einhugur væri hjá færeyska lögþinginu um að lána Íslendingum fé á sérstökum vildarkjörum. Taldi Árni að forseti Alþingis ætti ásamt þingmönnum að beita sér fyrir því að Alþingi sendi færeyska lögþinginu þakkir þings og þjóðar fyrir einstakan vinargreiða, færi svo að færeyska þingið samþykkti lánveitinguna.

Undir þetta tóku fjölmargir þingmenn úr öllum flokkum og benti Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem þeir hefðu aðstoðað okkur. Það hefðu þeir meðal annars gert þegar snjóflóð féll á Flateyri en þá hefðu Færeyingar staðið fyrir söfnun sem hefði leitt til þess að hægt var að byggja upp leikskóla í sveitarfélaginu.

Lagði hann til að þeir þingmenn sem væru á leið á fund EFTA-nefndarinnar beittu sér fyrir því að Færeyingar fengju aðild að EFTA eins og þeir hefðu farið fram á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×