Fótbolti

Ný Müller-markavél í þýska boltanum - tvær tvennur á fjórum dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Müller fagnar marki á móti Maccabi Haifa.
Thomas Müller fagnar marki á móti Maccabi Haifa. Mynd/AFP

Thomas Müller er langt frá því að vera þekktasti knattspyrnumaður Þýskalands en það gæti breyst fljótt því þessi tvítugi strákur hefur slegið í gegn hjá Bayern München í síðustu tveimur leikjum.

Müller fagnaði tvítugsafmæli sínu á sunnudaginn með því að skora tvær tvennur sitthvorum megin við afmælisdaginn sinn en strákurinn hefur verið í herbúðum Bayern síðan að hann var þrettán ára gamall.

Thomas Müller skoraði þannig tvennu í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni í gær en hann skoraði seinni tvö mörkin í 3-0 útisigri á ísraelska liðinu Maccabi Haifa. Müller skoraði einnig tvennu í þýsku deildinni á laugardaginn þegar Bayern München vann 5-1 sigur á Dortmund.

Einn frægasti markaskorari Þjóðverja frá upphafi var einnig af Müller-ætt en ekki er vitað hvort Gerd Müller og Thomas Müller séu eitthvað skyldir. Gerd Müller skoraði 398 mörk í 453 deildarleikjum með Bayern München á árunum 1964 til 1979.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×