Innlent

Ísland numið á árunum 700 til 750

Kristján Már Unnarsson skrifar
Margrét Hermanns Auðardóttir segir bæði fornleifarannsóknir og frjógreiningar hafa staðfest að Ísland var numið mun fyrr en opinberlega er viðurkennt. Hún telur tregðu sagnfræðinga um að kenna að Íslandssagan sé ekki endurskrifuð.

Fornleifafræðingar á Alþingisreitnum eru komnir niður á mannvistarleifar sem benda til að menn hafi verið búnir að setjast að nokkru áður en sagan segir að Ingólfur Arnarson hafi byggt sinn bústað. Það var hins vegar doktorsritgerð Margrétar Hermanns Auðardóttur fyrir tuttugu árum, sem byggði bæði á rannsóknum í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum og Kvosinni í Reykjavík, sem fyrst storkaði fyrir alvöru hinni opinberu söguskoðun að Ísland hefði verið numið í kringum árið 874.

Margrét segir að elsta byggð sé örugglega eldri, - og ekki ólíklega allnokkru eldri en frá 874. Þetta hafi ekki aðeins aldursgreiningar mannvistarleifa sýnt heldur einnig frjógreiningar sem sýna gróðurfarsbreytingar vegna búsetu manna. En hversvegna er þá sögukennslunni ekki breytt í skólum?

Margrét segir greinilega tregðu í íslenskri sagnfræðingastétt. Hún telur stöðu fornleifafræðinnar innan háskólasamfélagsins á Íslandi einnig skipta máli. Hún sé ekki sjálfstæð heldur einskonar stoðgrein sagnfræði. Fornleifafræðin þurfi að verða frjáls.

En hvaða ártal eiga Íslendingar að nota í staðinn fyrir 874? Ekkert eitt, telur Margrét, fremur líklegt árabil. Á fyrri hluta áttundu aldar, á árunum 700 til 750, - þá gætu menn hafa byrjað að setjast hér að, svarar hún.

Hún gefur lítið fyrir að þeir fyrstu hafi bara verið papar. Engar minjar hafi enn fundist um að hér hafi írskir menn verið upphaflega.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×