Rafael Benitez, stjóri Liverpool, segir að örlög tímabilsins gætu ráðist í þessari viku sem verður að teljast sú stærsta hjá enska liðinu í vetur. Á morgun mætir Liverpool Real Madrid í seinni leiknum í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar og spilar svo við Manchester United í toppslag enskur úrvalsdeildarinnar á laugardaginn.
"Þetta er rosalega mikilvæg vika fyrir okkur og þessir tveir leikir geta skipt öllu máli," sagði Benitez. Liverpool vann fyrri leikinn á móti Real Madrid 1-0 á útivelli. "Við verðum að passa okkur á því að halda ekki að þetta sé komið. Þetta verður allt annað en auðvelt," sagði Benitez um leikinn á móti Real Madrid á morgun.
Staða Liverpool er mun verri í ensku deildinni þar sem liðið er sjö stigum á eftir toppliði Manchester United. Tapist leikurinn má segja að síðasti möguleiki Liverpool á að vinna enska titilinn renni þeim endanlega úr greipum.