Innlent

Öllu vanur eftir þrjú eldgos um ævina

Félagarnir voru fegnir að komast í bátinn eftir hrakninga í sjónum. Kristján er lengst til vinstri, en við hlið hans sitja bræðurnir Kristján og Egill Egilssynir.Mynd/Sigurgeir
Félagarnir voru fegnir að komast í bátinn eftir hrakninga í sjónum. Kristján er lengst til vinstri, en við hlið hans sitja bræðurnir Kristján og Egill Egilssynir.Mynd/Sigurgeir

Kristján Guðmundsson býr að Steinum undir Eyjafjöllum og er því í nágrenni eldgossins í jöklinum. Hann kippir sér ekkert upp við eldsumbrotin, enda öllu vanur þar sem þetta er þriðja gosið sem hann sér í návígi.

Kristján bjó í Vestmannaeyjum og var í svaðilför sem margir muna eftir, þegar nokkrir Eyjamenn brutu bát í lendingu í Surtsey, árið 1963. Þá var hann í hópi íbúa sem flúðu upp á land þegar eldgos braust út í Heimaey árið 1973.

Hann segir allt aðra stemningu varðandi gosið nú en í Heimaey. „Þá varð maður bara að forða sér um nóttina. Menn áttu fótum sínum fjör að launa.“

Gosið nú hefur ekki mikil áhrif á Kristján, hann segist að mestu hættur búskap og vera með um 30 kindur og nokkur hross. Honum dettur ekki í hug að flytja búferlum til að fá frið fyrir þessum eldgosum, enda væri eins víst að það færi að gjósa hvar sem hann væri. „Ég er öllu vanur og kippi mér ekkert upp við þetta. Ég sef alveg rólegur.“

Kristján gerir þó ekki mikið úr því að hafa upplifað öll þessi eldgos. „Þetta er bara svona,“ segir hann.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×