Innlent

Hátt í hundrað manns ætla að taka þátt í hreinsunarstarfi í dag

Karen Kjartansdóttir skrifar
Von er á miklum fjölda til þess að taka þátt í hreinsunarstarfi í dag. Mynd/ Vilhelm.
Von er á miklum fjölda til þess að taka þátt í hreinsunarstarfi í dag. Mynd/ Vilhelm.
Nóttin var róleg í grennd við gosstöðvarnar á Eyjafjallajökli. Lögreglan á Hvolsvelli á í dag von á hátt í hundrað manns, félögum björgunarsveita, jeppaklúbbnum 4x4, félögum Fésbókarsíðu og öðrum sem vilja aðstoða við hreinsun og störf á bæjum undir Eyjafjöllum.

Gosaska berst til vesturs frá Eyjafjallajökli, en rigning dregur úr öskumistri, einkum þegar fjær dregur eldstöðinni. Lítilsháttar öskumistur getur þó borist til Reykjavíkur og einnig til Norðvesturlands. Gert er ráð fyrir að dragi úr svifryksmengun í höfuðborginni, meðal annars vegna úrkomu og breyttrar vindáttar. Umhverfisstofnun bendir á að þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri geta fundið fyrir óþægindum en óþarfi er að nota grímur nema í sýnilegu öskufalli. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vaktar loftgæðin í borginni og gefur út frekari tilkynningar ef þörf krefur.

Samkvæmt upplýsingum frá Flugstoðum eru í gildi takmarkanir á flugumferð. Flugfarþegum er sem fyrr bent á að fylgjast vel með upplýsingum um flug hjá flugfélögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×