Innlent

Snúið upp á hendurnar á Geir og Árna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhjálmur Egilsson segir að skoða verði Icesave málið útfrá aðstæðunum sem það kom upp í. Mynd/ Vilhelm.
Vilhjálmur Egilsson segir að skoða verði Icesave málið útfrá aðstæðunum sem það kom upp í. Mynd/ Vilhelm.
„Þetta var allt stopp," sagði Vilhjálmur Egilsson, aðspurður um gagnrýni á stuðning hans við Icesave samkomulagið sem var gert í fyrra. Samningurinn sem var kynntur fyrir fáeinum dögum er töluvert betri en sá samningur, í það minnsta þegar litið er til vaxtaprósentunnar.

Í þættinum Sprengjusandi í morgun var Vilhjálmur spurður út í gagnrýni á stuðning sinn á gamla samninginn. Hann segir að mikilvægt sé að horfa til upphaf málsins haustið 2008. „Það var ekki verið að flytja greiðslur fyrir vörur og þjónustu til landsins. Það var heldur ekki hægt að flytja út greiðslur fyrir vöru og þjónustu sem verið var að kaupa inn til landsins," segir Vilhjálmur.

Það hafi verið við þessi skilyrði sem ríkisstjórn Breta hafi komið hryðjuverkalöggjöfinni yfir Íslendinga. „Það var bara snúið upp á hendurnar á Geir Haarde og Árna Matt og þeir spurðir hvort þeir vildu að Bretar og Hollendingar greiddu þetta út. Þeir áttu ekki margra kosta völ," segir Vilhjálmur. Eflaust hefði ekki verið betra fyrir Íslendinga að breskir sparifjáreigendur sætu með allt sitt sparifé fast inni. „Tjónið sem þetta hefði getað valdið okkur var gífurlegt. Það er við þessi skilyrði sem allt þetta mál fer í gang," segir Vilhjálmur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×